Hey Jude (Ballaðan um R og J)

Það var fimmtudagskvöld í leikhúsi í Lundúnum. Kvöld sem leiðir
tveggja einstaklinga láu saman. Einstaklinga sem hafa hvor á sinn hátt
markað djúp spor í menningarsögu sinna þjóða. R hafði nýlokið að
koma fram í leiksýningu kvöldsins. Lagt hjarta sitt og sál að veði.
Þegar listamenn ganga langt í listsköpun sinni hefur það
óhjákvæmilega áhrif á tilfinningalíf þeirra. Þetta umrædda kvöld
er R viðkvæmur,brothættur. Eins og titrandi sólblóm í haustvindi.

Frammi í anddyri er uppáklætt fólk. Demantar á fingrum kvenna sem og
einstaka karlmanns. Demantar í hálsfestum. Demantar í eyrnalokkum.
Demantar. Silki. Demantar. Smókingar. Leðurskór.Blóðugir demantar?
Þetta umrædda kvöld er öllu til tjaldað.

Dýrindis matur á borðum. Endalausar tegundir af gómsætum réttum sem
varla er hægt að átta sig á hvað er. Svo gott er það. Dýr í
útrýmingarhættu?  Annað getur ekki verið. Kampavín flæðir.

R stendur við barinn. Virðir fólkið fyrir sér. Skyndilega fer kliður
um salinn. Úr anddyrinu má sjá leiftur af ljósum myndavéla. Rýnir í
áttina. Getur það verið? Er hann hér?

Þetta er hann. Það er til Guð...og hann heitir J! Hann er myndarlegur.
Nei,fallegur. Nei, guðdómlega fallegur. Svona menn eru ekki til! “Er
þetta draumur?” hugsar R.
“Ef svo er, þá vil ég ekki vakna!”

Eftir vanalegar myndatökur er J kominn í salinn. Veit að fólkið horfir
á hann. Veit að þeir sem snúa í hann baki iða í skinninu að snúa
sér við.

J lítur yfir salinn. Hann veit. Hann veit að hann á athyglina.
Skuldlaust. Rennir augunum á tælandi hátt aftur  yfir mannfjöldann.
Hann stöðvar í miðjum sal. Hann kemst ekki lengra með augun. Bláu
augu J læsast. Þau læsast í augum í fjöldanum. Þetta eru brún augu.
Þetta eru augu sem halda þér í heljargreipum. Þú losnar ekki þó
þú reynir að loka augunum. Þú losnar ekki og þú vilt ekki losna. J
veit það. Hann finnur eilítinn titring í hnjánum.

Það er eins og römm taug séu milli augna þessarra tveggja
einstaklinga. Eins og taug milli tveggja ósjálfbjarga báta í ólgusjó
sem eiga aðeins von um að tauginn haldi. Haldi þeim saman. Haldi í
þeim lífinu.

J reynir að ganga í áttina að þessum brúnu augum. Fæturnir eins og
brauð. Nýbakað brauð. Mjúkt brauð. Hann kemst á leiðarenda. Hvað
er hægt að segja? Ekkert! Þeir horfast í augu. Orð eru óþörf. R
brýtur ísinn. Tekur upp símtæki. Beinir því til himna. Ljósið af
tækinu lýsir upp þessi andlit. Síminn hugsar með sér:”Þvílík
sjón. Ég er heppinn sími!”
R þrýstir á hnappinn og andartakið er fangað. Bláu augun gefa brúnu
augunum bendingu um að þau verði að fara. Hér verði að hætta.
Annars verði ekki hægt að ábyrgjast afleiðingarnar.
Brúnu augun samþykkja.

Í ballöðunni um R og J rúmast ekki fleiri orð.

Hvernig er hægt að lýsa því ólýsanlega?

Gandálfur kemur þá aðvífandi með stafinn góða og pantar sér drykk.  R vaknar:  Þetta var draumur.


Góðar stundir,
Björn Hlynur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband