Baksviðs

Sit hér inni á herbergi og bíð eftir innkomunni minni. Klæddur eingöngu í hvítar nærbuxur, kjólfatajakka og svartan hatt. Ég er semsagt að fara að leika djöful sem skoppast um á netinu. Hahaha, þetta er nú ævistarfið. Leikstjórinn bað mig um að finna djöfulinn í mér í þessari stuttu senu þar sem ég segi ekkert. Minnir dáldið á dýraspunana í Leiklistarskólanum ;) Lofa að leggja mig allan fram!

Eftir það fer ég baksviðs niður 3 hæðir til að fara í hvíta læknabúninginn til segja 2 setningar á sviðinu en eftir það fer ég aftur upp á 3. hæð til að henda mér 4 metra niður netið og kasta mér svo fram af því aftur niður á sviðið. Jæja gott fyrir aukakílóin I guess ;)

Bestu kveðjur.

Rúnar Freyr leikari.


Groundhog day í London

Jæja, nú er maður farinn að kynnast því hvernig það er að vera leikari í London. Við sýnum 7 sýningar á viku, öll kvöld nema sunnudaga og tvisvar á laugardögum. Mér hefur stundum fundist ég finna það á leikurunum sem ég hef séð á sviði á West End að þeir eru annaðhvort þreyttir eða að spara sig, og núna skil ég þá! Það er ansi mikið álag að sýna á hverju kvöldi. Ég tala nú ekki um svona físískar sýningar, eins og söngleiki, Faust og slíkt. Hér vaknar maður alltaf dáldið stirður og notar daginn til að liðka sig og koma sér í gírinn fyrir sýningu kvöldsins. Hér gengur maður mikið. Alveg er ótrúlegt hvað manni finnst lítið mál að þramma um allt í stórborgum þegar maður nennir varla að rölta út í búð á Íslandi. Hvað er það eiginlega?

Hér er mjög gaman hjá okkur. Æðislegt að vera í London á þessum tíma, lengja sumarið aðeins og kynnast borginni. Hingað koma líka vinir og fjölskyldumeðlimir í heimsókn. Um daginn fékk ég 5 vini mína til mín sem komu til að vera viðstaddir frumsýninguna og á innan skamms kemur strákurinn minn (7 ára) til mín. Það verður eitthvað. Við ætlum að skoða borgina, fara í dýragarðinn, kíkja á krakkasöfn en hápunkturinn verður örugglega feðgafótbolti í HydePark. Ef ég þekki hann rétt ;)

Nú eru nokkrir í hópnum að fara að kaupa sér hjól. Það mun koma sér vel fyrir mann eins og mig sem þolir ekki neðjanjarðalestir. Við búum í hverfi sem heitir Southwark og er í S-London, rétt hjá London Bridge og Elephant and Castle. Æðislegt hverfi sem hefur verið að byggjast upp sl. ár. Héðan tekur 17 mín (nákvæmlega) að labba í leikhúsið okkar og tæpan klukkutíma í Covent Garden. Skemmitlegast þykir mér að rölta um Southbank og horfa yfir ánna. Best ég geri það núna í sólinni og blíðunni. Og læt mig dreyma um nýja hjólið... ;)

Bestu kveðjur,

Rúnar Freyr leikari.


Verið að leggja lokahönd á verkið

Hérna frá Lundúnum er allt gott að frétta.
Við erum hérna í góðu yfirlæti í Young Vic leikhúsinu, það er allt á fullu inn á sviði. Þar er verið að leggja loka höndina á að koma leikmyndinni upp.

Á meðan erum við leikararnir að væflast um baksviðs. Svo mun hefjast hið svokallaða tekk rennsli hefjast. Þar sem allt verður prófað, ljósin sett inn sem og hljóðmyndin. Jú og við leikararnir erum að finna leiðir til að komast inn á og út af sviðinu. Því eins og þeir sem hafa séð sýninguna vita þá komum við inn og förum út á hinum ýmsu stöðum. múhahhaha.

Svava er búin að skjótast einu sinni upp úr gatinu sem Lilith og allt gekk samkvæmt plani. Á meðan sat ég (Nína) sveitt og horfði á hana þessa elsku skjótast upp.

Unnur er búin að fljúga yfir í rólunni, þannig við erum á góðum stað.
Einar og Diddi sviðsmenn eru mjög ánægðir með alla sem vinna hérna og segja að þeir séu að skiptast á reynslu. Þannig að strákarnir okkar koma með nýja reynslu heim úr ferðinni, eins og við öll munum gera án efa.
Jæja þetta verður langur dagur, en án efa skemmtilegur

Nína Dögg


Önnur vika Faust hópsins í London.

Nú er önnur vikan okkar hér í London hafin og fyrstu forsýningu er
lokið. Það var skrítin tilfinning að standa frammi fyrir fullum sal af
fólki í fyrsta sinn á laugardaginn, leika á ensku og reyna að láta
eins og ekkert væri manni tamara. En viti menn, þetta gekk aldeilis
ágætlega hjá okkur. Tæknin var ekki alveg tilbúin, enda höfum við viku
í að hreinsa tæknina og fullkomna sýninguna. Viðtökurnar voru framan
vonum ,mikið klappað. Álagið á okkur er gífurlega mikið, það fylgir
stressinu og breytingum sem við erum að vinna að en yndið hann Gísli
Örn leikstjórinn okkar er mjög meðvitaður um að hvíla okkur vel á
milli æfinga svo að við höldum velli. Sum okkar eru aðeins að veikjast
en það er ekkert sem mun ekki jafna sig hratt og vel. Ha?!

Eftirfarandi tilvitnun var sett á facebook í gær í stadus eins
áhorfenda: '...saw the best piece of theatre she has ever experienced
yesterday.. Go and see Faust at the Young Vic if you possibly can!'
...hressandi:)

Hin formlega frumsýning Faust er nú á föstudaginn 1. okt. Þá koma
gagnrýnendur og ýmsir boðsgestir. Það er frábært að hafa sýnt
forsýningar fyrir troðfullum sal, slípað sig í enskunni og hlutverkinu
í heila viku fyrir frumsýninguna. Engu að síður verður eflaust
örlítill fiðringur í maganum á kvöldinu stóra. Hótelíbúðirnar okkar
eru æðislegar, þar hlöðum við batteríin fyrir komandi törn, svo tökum
við bresku hefðina á þetta og skálum í einum öl eftir vinnu, köstum á
milli okkar hugmyndum og ræðum hvað mætti betur fara. Gæti ég vanist
þessu lífi, eehhh já! Mun allt smella á föstudaginn? Mun Nína Dögg
lenda á netinu? Mun ég muna textann minn? Mun Hilmir Snær finna
djöfulinn í sér? Mun Dýrleif mæta með töfrabrögðin? Hver veit, hver
veit? Spyrjum að leikslokum.


Faust í London....dagur 5,

Leikhópurinn fer á svið í fyrsta sinn í dag en þar eru Einar, Diddi og
Halli Volvo sviðsmenn auk Dodda ljósahönnuðar, Sela leikmyndahönnuðar
og að sjálfsögðu Gísla leikstjóra, búnir að vera ansi sveittir dag
eftir dag við að koma upp leikmynd, ljósum, riggum, neti og fleiru og
fleiru. Erum orðin mjög spennt að fá að prófa rennsli í leikmynd og
tékka á öllum fimleikatrixunum, svona sérstaklega í ljósi þess að á
laugardag verður jú fullur salur af fyrstu áhorfendum!!! Arrrggggg,
smá fiðringur svona í maganum yfir því jú jú. Við leikararnir erum
hins vegar búin að renna textanum, æfa breskuna, laga senur og renna á
æfingarsal í fjóra daga núna. Svövu fimleikastelpu var skotið upp úr
gryfjunni á sviðinu í fyrsta sinn í gær. Henni og Nilla fimleikamanni
er fórnað í mestu áhættusenur leikaranna þegar þær eru prufukeyrðar,
gaman fyrir þau:) Það gekk glimrandi vel og var hreinleiga
áhrifaríkara en heima á Íslandi því vegalendin sem Nína muna skjótast
upp er töluvert lengri en heima.

Það var flott umfjöllun um okkur í Time Out í gær, myndir og stórt
viðtal við Gísla Örn. Það virðist vera að myndast smá spenningur hér í
London fyrir íslensku loftfimleika útgáfu Vesturports af Gothe´s
Faust. Erum á fullu að taka ljósmyndir og video sem mun birtast hér á
blogginu okkar á næstu dögum. Þar munuð þið geta séð td hvernig spítt
textarennsli fer fram ofl. Á svoleiðis rennslum förum við með allan
textann á innan við klukkutíma og það er ansi mikilvægt að vera vel
einbeittur á svoleiðis morgnum. Jæja, ég ætla að labba af stað í
leikhúsið og reyna að troða mér í korselettið fyrir fyrsta
tæknirennsli. Já já...


Borgarleikhúsið og Vesturport leggja af stað til London

Lentum á Gatwick flugvelli um 7 leitið eftir ljúfa flugferð. Firðingur
í maganum, spenna fyrir komandi tímum í Lundúnaborg. Hvað erum við að
fara út í ? Það er nokkuð spennandi vægast sagt en einnig
ófyrirsjáanlegt. Fyrsta kvöldið var borðað saman á inverskum
veitingastað með leikhússtjóra Young Vic honum David Lan. Hann sagði
okkur ýmsar mjög spennandi fréttir sem ég þori ekki að segja frá fyrr
en að því kemur en eru ansi krassandi! Ráfuðum um borgina sem er
gersamlega uppfull af innblæstri úr öllum áttum, merkilegt hvað
Reykjavíkin okkar getur verið lítil í samanburði. Duttum óvartr inn á
frábært lítið leikhús og bar þar sem Shunt leikhópurinn heldur til.
Þar börðum við augum ansi hreint frumlegan gjörning þar sem
óperusöngkona söng undurfagurt við selló undirleik og stakk löngum
nálum í andlit sitt á meðan á söngnum stóð, þegar líða tók á atriðið
dró hún svo nálarnar úr andlitinu og þá fossblæddi yfir hana alla.
Þetta var nokkuð magnað og mjög áhrifaríkt, fyrsta inspírasjónin hér
var dálítið eins og að vera komin til Berlínar. Er ansi hrædd um að
þetta verði barinn "okkar" hér, fullt af spennandi listafólki, risa
garður og frábær stemning. Ætlum að sjá Shunt leikhópinn sjálfan þar á
næstu dögum.
....
Komum í Young Vic leikhúsið í fyrsta sinn í morgun, flest okkar að
koma þangað í fyrsta sinn en sumir hafa þó leikið ansi margar sýningar
þar af Rómeó og Júlíu á sínum tíma. Rosalega "kúl" leikhús, svona röff
og skemmtileg stemning. Áhorfendasalurinn tekur um 450 manns og salan
á þessar ca 40 sýningar okkar hér gengur, að mér skilst, ótrúlega vel!
Mikill léttir. Tókum textarennsli í pínulitlum æfingasal, enskan okkar
er hreint ekki svo slæm eftir að við fengum einn besta tal þjálfa
London til að hjálpa okkur heima á Íslandi í undirbúningnum síðustu
vikuna fyrir brottför. Úff, pressan er samt mikil, hvað mun fólki
finnast um sýninguna?? Verða gagnrýnendur ánægðir, munum við halda
heilsu? Mun Nilli fimleikakónur rífa magavöðvana eins og í Rómeó og
Júlíu run-inu um árið? Munu laufin sofa á meðan spaðarnir liggja
andvaka? Spyrjum að leikslokum. Þetta er í það minnsta ótrúlega
spennandi og stemningin í hópnum er frábær!!!!

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband